SFH, Skautafélag Hafnarfjarðar, lék sinn fyrsta leik á Íslandsmóti karla í íshokkí er liðið mætti Fjölni í Egilshöll í kvöld. Fjölnismenn reyndust of sterkir fyrir nýliðana og unnu 5:1-sigur.
Hilmar Sverrisson og Andri Helgason komu Fjölni í 2:0 í fyrstu lotu, en Egill Þormóðsson minnkaði muninn í upphafi annarrar lotu.
Hektor Hrólfsson kom Fjölni aftur tveimur mörkum yfir með seinna marki lotunnar. Fjölnismenn reyndust svo sterkari í þriðju lotu, þar sem Liridon Duplajku og Martin Simanek bættu í forskotið.
SA er á toppi deildarinnar með sex stig, SR og Fjölnir eru með þrjú hvor og SFH er án stiga, eftir fyrsta leikinn sinn í sögunni. Liðið leikur alla leiki sína á útivöllum þar sem engin skautahöll er í Hafnarfirði.