Þykist vera ólympíufari á stefnumótaforritum

Nicholas Lia við keppni á Ólympíuleikunum í París í sumar.
Nicholas Lia við keppni á Ólympíuleikunum í París í sumar. AFP/Sebastien Bozon

Norski sundmaðurinn Nicholas Lia, sem fór á sína fyrstu Ólympíuleika í París í sumar, á ekki sjö dagana sæla þar sem óprúttinn aðili hefur í nokkur ár notast við ljósmyndir af Lia og þóst vera hann á stefnumótaforritum og samfélagsmiðlum.

„Þetta er virkilega ógeðslegt. Ég veit að ég á engan tvífara úti í heimi,“ sagði Lia í samtali við NRK.

Undanfarin þrjú ár hefur Norðmaðurinn fengið nokkur skilaboð frá konum sem tilkynna honum að þær hafi kynnst einhverjum á stefnumótaforritinu Tinder sem væri að notast við ljósmyndir af Lia.

„Til að byrja með hugsaði ég ekki mikið um þetta. En svo barst mér það til eyrna að þessi aðili vildi fara að hitta fólkið sem hann væri að tala og sendi skilaboð þess efnis. Þá varð þetta óþægilegt,“ sagði hann.

Sex aðgangar með myndum af Lia

Eftir því sem NRK kemst næst hafa að minnsta kosti sex aðgangar með mismunandi notendanöfnum verið búnir til á samfélagsmiðlum og stefnumótaforritum frá árinu 2022. Allir notast þeir við myndir af Lia og allir við sama nafn, Trym.

Lia kvaðst ekki vita hversu margar konur hefðu verið blekktar í hans nafni á undanförnum árum en kvíðir fyrir þeim möguleika að hann hitti þær sjálfur.

„Ég gæti allt í einu hitt þær á almannafæri. Þá hugsa þær eflaust: „Þarna er Trym, hann er helvíti ógeðslegur“.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert