„Hún var skilin eftir til þess að deyja“

Muriel Furrer var 18 ára gömul þegar hún lést.
Muriel Furrer var 18 ára gömul þegar hún lést. Ljósmynd/UCI

Ítalski hjólreiðamaðurinn Andrea Raccagni Noviero minntist svissnesku hjólreiðakonunnar Muriel Furrer í hjartnæmri en líka harðorðri færslu sem hann birti á samfélagsmiðlinum Instagram í gær.

Furrer lést eftir að hún slasaðist alvarlega á heimsmeistaramótinu í Zürich í Sviss í lok septembermánaðar en hún féll af hjóli sínu þegar hún tók krappa beygju á sleipum veginum eftir mikla rigningatíð í Zürich.

Furrer, sem var einungis 18 ára gömul, lést af sárum sínum á spítala í Zürich eftir alvarlegt höfuðhögg en það tók skipuleggjendur mótsins eina og hálfa klukkustund að finna hjólreiðakonuna ungu.

Fannst það ekki rétt

„Ég ætlaði að birta færslu, með skemmtilegum myndum, til þess að fanga stemninguna á heimsmeistaramótinu en mér fannst það ekki rétt,“ skrifaði Noviero sem hefur orðið bæði heims- og Evrópumeistari í liðakeppni í tímatöku.

„Það er vika síðan að HM lauk og það er enginn að spá í það sem gerðist á mótinu lengur. Það eina sem ég veit er að hjólreiðakona er látin og hún var skilin eftir til þess að deyja. Í rigningunni og vonda veðrinu lá hún í sárum sínum í meira en klukkustund, í mikilvægustu keppni ársins.

„Kannski kemur ekkert gott út úr þessum skrifum, þó ég sé auðvitað að vonast eftir viðbrögðum en þetta gefur mér allavega tækifæri til þess að biðja bæði Muriel og fjölskyldu hennar afsökunar. Þetta slys er bæði mér og öðru hjólreiðafólki að kenna því við höfum kosið að þegja í stað þess að segja eitthvað þegar kemur að almennu öryggi hjólreiðakeppenda,“ skrifaði Noviero.

Allir keppendur settu líf sitt í hættu

Noviero gagnrýnir skipuleggjendur heimsmeistaramótsins harðlega í færslu sinni en helsti skipuleggjandi mótsins er Alþjóða hjólreiðasambandið.

„Ég tók ekki þátt í sömu keppni og Muriel en ég tók þátt á mótinu. Allir þeir sem kepptu í tímatöku settu líf sitt í hættu með því að keppa við þessar aðstæður. Þetta var almenn vitneskja, hjá keppendunum líka.

Við sem keppum í hjólreiðum gerum okkur grein fyrir því að íþróttin getur verið hættuleg. En aðstæðurnar sem við erum sett í eru ennþá hættulegri. Það gefur augaleið að skipuleggjendum heimsmeistaramótsins var nákvæmlega sama um öryggi keppendanna.

Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir þennan harmleik en í staðinn er ung kona, sem átti allt lífið framundan, látin. Sökin er okkar. Við hefðum átt að segja og gera meira. Við verðum að tala opinskátt og láta í okkur heyra. Aðstæðurnar sem við erum sett í eru ekki boðlegar,“ skrifaði Noviero meðal annars en færslu hans í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert