Hamar beið í gærkvöld lægri hlut fyrir hollenska liðinu Limax, 3:0, í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð Áskorendabikars karla í blaki.
Liðin mætast aftur í Digranesi í Kópavogi miðvikudagskvöldið 16. október.
Þó liðið sé frá Linne í Hollandi var leikið í belgíska bænum Maaseik en báðir bæirnir eru við landamæri grannþjóðanna í Limburg-héraðinu.
Hrinurnar enduðu 25:20, 25:10 og 25:20, Limax í vil og stóðu Hamarsmenn best í mótherjum sínum í þriðju og síðustu hrinunni. Þá voru þeir með forystuna, 18:16, þegar langt var liðið á hana en Hollendingarnir sneru stöðunni sér í vil og sluppu við að leika fjórðu hrinuna.