Fjölnir áfram á sigurbraut

Elísa Dís Sigfinnsdóttir skoraði eitt marka Fjölnis í kvöld.
Elísa Dís Sigfinnsdóttir skoraði eitt marka Fjölnis í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Fjölnir hafði betur gegn SR, 4:2, á Íslandsmóti kvenna í íshokkí í skautahöllinni í Egilshöll í kvöld.

Fjölnir er á toppi deildarinnar með tólf stig eftir að hafa unnið fjóra af fyrstu fimm leikjum sínum. SR er á botninum án stiga eftir fjóra leiki.

Í leiknum í kvöld var hart barist. Heimakonur í Fjölni náðu forystunni eftir aðein fjóra og hálfa mínútu í fyrstu lotu þegar Elísa Dís Sigfinnsdóttir skoraði.

Áður en fyrsta lota var úti jafnaði Gunnborg Jóhannsdóttir metin fyrir SR og staðan orðin 1:1.

Hilma Bergsdóttir kom Fjölni yfir að nýju snemma í annarri lotu en stuttu síðar jafnaði Arna Friðjónsdóttir metin fyrir SR í annað sinn í leiknum.

Eva Hlynsdóttir kom svo Fjölni í forystu í þriðja sinn og sá til þess að staðan var 3:2 að lokinni annarri lotu.

Í þriðju og síðustu lotu innsiglaði Kolbrún Garðarsdóttir svo sigur Fjölnis með fjórða marki heimakvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert