Selja klósettpappír til þess að komast á Evrópumót

Andrea Sif Pétursdóttir ásamt liðsfélögum sínum í Stjörnunni á Íslandsmótinu …
Andrea Sif Pétursdóttir ásamt liðsfélögum sínum í Stjörnunni á Íslandsmótinu í hópfimleikum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum þurfti meðal annars að selja klósettpappír til þess að fjármagna keppnisferð sína á Evrópumótið sem fram fer í Bakú í Aserbaídsjan og hefst í næstu viku.

Íslenska liðið hefur átt góðu gengi að fagna á síðustu Evrópumótum en liðið fékk silfurverðlaun á síðasta móti í Lúxemborg árið 2022, og gullverðlaun á mótinu í Portúgal árið 2021.

Andrea Sif Pétursdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, er á leið á sitt sjötta Evrópumót í fullorðinsflokki og hefur engin kona keppt oftar í fullorðinsflokki á EM.

Stærsta kvennaíþrótt landsins

„Verkefnið er að kosta mun meira en rekstaráætlunin gerði ráð fyrir,“ sagði Andrea Sif í samtali við mbl.is.

„Við erum búnar að vera selja klósettpappír til þess að fjármagna ferðina. Það var óánægja með það innan fimleikasambandsins hversu lítið fjármagn við fengum frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands í ár.  Fimleikar eru stærsta kvennaíþróttin á landinu og stærsta innanhúsíþróttin líka. Það er bara þannig að þriðja hver stelpa, undir 16 ára aldri, er að æfa fimleika. 

Það er því fyrst og fremst sorglegt hversu lítinn styrk við höfum fengið fyrir þetta mót því við höfum staðið okkur mjög vel í gegnum tíðina. Vonandi batnar þetta eitthvað í komandi framtíð,“ sagði Andrea Sif meðal annars í samtali við mbl.is.

Viðtal við Andreu Sif má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert