Ísland er Evrópumeistari

Íslensku Evrópumeistararnir.
Íslensku Evrópumeistararnir. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Kvennalið Íslands í hópfimleikum sigraði í úrslitunum á Evrópumótinu í Bakú í Aserbaídsjan í dag og er Evrópumeistari í fjórða skipti.

Íslenska liðið hafði betur eftir mjög harða keppni við Svía, Dani og Norðmenn. 

Ísland fékk 0,450 stigum meira en Svíar sem höfnuðu í öðru sæti. Norðmenn náðu bronsinu og Danir urðu að sætta sig við fjórða sætið.

Frammistaðan í gólfæfingunum réð úrslitum en þar fékk Ísland 18.600 stig. Áður hafði liðið fengið flest stig allra í stökki, 18.250 stig og þá fékk íslenska liðið 17.000 stig á trampólíni þar sem Svíar gerðu aðeins betur og fengu 17.300 stig.

Ísland varð síðast Evrópumeistari kvenna árið 2021. Áður vann Ísland árin 2010 og 2012.

Lið Íslands er einnig í úrslitum í blönduðum flokki og sú keppni hefst núna laust fyrir klukkan 10.

Íslenska liðið fagnar.
Íslenska liðið fagnar. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert