Eitt gull og fjögur brons á Norðurlandamóti

Eygló Fanndal Sturludóttir og Guðný Björk Stefánsdóttir á palli.
Eygló Fanndal Sturludóttir og Guðný Björk Stefánsdóttir á palli. Ljósmynd/Lyftingasamband Íslands

Ísland tók heim ein gullverðlaun og fjögur bronsverðlaun á Norðurlandamótinu í Ólympískum lyftingum í Runavík í Færeyjum um helgina.

Tíu íslenskir keppendur voru skráðir á mótið en náðu aðeins níu að mæta til leiks í tæka tíð. Það var vegna óhagstæða vinda í Færeyjum sem gerði keppendum erfitt fyrir að komast á mótsstað.

Eygló Fanndal Sturludóttir varð Norðurlandameistari í -71kg flokki kvenna en í snörun lyfti hún 104kg og 130kg í jafnhendingu. Í sama flokki tók Guðný Björk Stefánsdóttir þriðja sætið en hún lyfti 96kg í snörun og 110kg í jafnhendingu.

Í -59kg flokki hafnaði Þuríður Erla Helgadóttir í þriðja sæti. Hún snaraði 77kg og jafnhenti 104kg.

Katla Björk Ketilsdóttir lenti líka í þriðja sæti í -64kg flokki. Hún lyfti 86kg í snörun og 98kg í jafnhendingu.

Þórbergur Ernir Hlynsson hafnaði í þriðja sæti í -96kg flokki en hann var að keppa í fyrsta skipti í flokki fullorðinna. Hann lyfti 132kg í snörun og 162kg í jafnhendingu.

Íslenski hópurinn.
Íslenski hópurinn. Ljósmynd/Lyftingasamband Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert