Átti Íslandsmetið í eina mínútu

Norðlendingurinn Viktor Samúelsson átti fínustu för á ÍM í Garðabænum …
Norðlendingurinn Viktor Samúelsson átti fínustu för á ÍM í Garðabænum um helgina og hafnaði í gullsætinu í -105 kg flokki eftir harða keppni við Alexander Örn Kárason. Myndin er frá móti í fyrra. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég var bara mjög vel stemmdur og vissi alveg að ég væri nálægt mínu besta,“ segir Viktor Samúelsson kraftlyftingamaður sem hafði sigur í -105 kg flokki karla á Íslandsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Miðgarði í Garðabæ í gær, en þeir voru sex sem öttu kappi í þyngdarflokkinum. Í kvennaflokki hafði Lucie Stefaniková yfirburðasigur á mótinu.

Eitilhörð keppni þeirra Alexanders Arnar Kárasonar setti töluverðan svip á gang mála í -105 og fór svo að Alexander stóð uppi sem stigahæsti keppandi mótsins í karlaflokki þótt Viktor hreppti gullið enda Alexander léttur í -105, einum flokki yfir sínum hefðbundna -93 kg flokki, en hann er auk þess helmingur líklega sterkasta pars landsins.

„Ég nældi mér í ælupest í vikunni,“ segir Akureyringurinn Viktor og harðmælt k-ið í vikunni dylur hvergi norðlenskan uppruna lyftingamannsins sem kveðst hafa hrist af sér pestina og mætt vígreifur til leiks í Garðabænum.

Hefði verið dýrkeypt

„Ég tók 287 og hálf í hnébeygju númer tvö og Alexander fór í sömu lyftu svo ég fór í Íslandsmet í þriðju lyftunni með 291 kíló og það fór sem betur fer upp þótt mig hefði kannski langað í aðeins meira,“ heldur hann áfram.

Í bekknum tók Alexander svo Íslandsmet Viktors í annarri lyftu með 201,5 kg „þannig að ég fór í 202 í lyftu númer tvö hjá mér og tók það til baka. Hann fór svo í 203 og hálft í þriðju lyftunni og tók það af mér þannig að ég átti Íslandsmetið í eitthvað um eina mínútu kannski,“ segir Viktor glettnislega.

Alexander Örn Kárason veitti Viktori harða keppni og stóð uppi …
Alexander Örn Kárason veitti Viktori harða keppni og stóð uppi stigahæstur karlkyns keppenda í gær svo hvorugur þeirra Viktors getur kvartað yfir árangri, Alexander vel léttur í -105, hans heimaflokkur fram til þessa hefur verið -93. Ljósmynd/Kraftlyftingasamband Íslands/Sigurjón Pétursson

Þegar réttstöðulyftan var ein eftir magnaðist spennan. „Þá voru bara þrjú eða fjögur kíló á milli okkar og ég vissi svo sem að ég væri aðeins betri en hann í réttstöðulyftu. Ég ætlaði að reyna að vinna þetta á stigum en var samt aðallega að hugsa um að bæta Íslandsmetið í samanlögðu og vinna í flokkinum.

Eftir að ég sá að ég var búinn að vinna í flokkinum sá ég að ég þyrfti að fara í 335 í réttstöðu sem hefði mögulega farið upp, en hefði verið dýrkeypt að klikka á því og sitja eftir með 317 og hálft svo ég fór í 325 í síðustu lyftunni sem var þá Íslandsmet í samanlögðu. Vissi að það var ekki nóg til að vinna á stigum en það var það sem ég hélt að væri inni á þessum degi og það gekk ágætlega,“ segir Viktor, en Alexander Örn lauk keppni í réttstöðu með 312,5 kg.

Viktor Samúelsson hefur getið sér góðan orðstír á mótum hér- …
Viktor Samúelsson hefur getið sér góðan orðstír á mótum hér- sem erlendis síðustu misseri og veitt mbl.is fjölda viðtala um gengi sitt í hverri hólmgöngu. Ljósmyndari/Hinrik Pálsson

Kveðst Viktor ánægður með mótið, langt sé síðan hann hafi farið gegnum mót með allar lyftur gildar, „þrjú hvít ljós, þannig að ég var bara hrikalega ánægður með þetta“, segir Viktor Samúelsson sem ætlar að taka sér rólega viku áður en hann byrjar að keyra sig upp fyrir Evrópumeistaramót í Málaga á Spáni í mars 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka