„Ég mætti á mótið til að hafa gaman af því, ég gerði mér ekki miklar væntingar,“ segir hin tékkneska Lucie Stefaniková í samtali við mbl.is, en hún kom sá og sigraði á Íslandsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Miðgarði í Garðabæ í gær, hafnaði í fyrsta sæti af þremur keppendum í -84 kg flokki og var stigahæst allra kvenkyns keppenda á mótinu.
„Ég hef átt dálítið erfitt tímabil núna undanfarið síðan ég eignaðist þriðja barnið, hún er sautján mánaða núna, svo nú er ég hægt og rólega að koma aftur,“ segir Lucie á reiprennandi íslensku en hún á rætur að rekja til tékknesku borgarinnar Ostrava, flutti til landsins árið 2016 og bíður nú eftir íslenskum ríkisborgararétti sem er í umsóknarferli.
Þar til hann er í höfn er staða þessarar öflugu lyftingakonu örlítið skert. Henni er heimilt að keppa á alþjóðlegum kraftlyftingamótum fyrir Íslands hönd en hún getur ekki fengið nein met skráð á þessum mótum þar sem hún er ekki íslenskur ríkisborgari.
„Mig langaði bara að ná níu gildum lyftum en þó bæta mig,“ heldur Lucie áfram og varð svo sannarlega að ósk sinni í Garðabænum í gær þar sem hún setti persónuleg mótsmet í öllum þremur greinum, hafði lyft sömu þyngdum í hnébeygju og bekkpressu á æfingu en tók nú í fyrsta sinn á ævinni 230 kílógrömm í réttstöðulyftu. Við förum í gegnum lyftur Lucie á mótinu.
„Ég byrjaði í hnébeygjunni með 190 kíló sem var létt, svo ég hækkaði í 200 og tók svo 210 í þriðju og þetta flaug allt upp,“ segir hún frá og ekki gekk bekkpressan, guðsgreinin sjálf, lakar. Þar lyfti sú tékkneska 110 kílóum í fyrstu lyftu, fylgdi þeirri lyftu eftir með léttum 115 og ákvað þá að 120 væri sjálfsagt framhald, gríðargóð þyngd fyrir keppanda í kvennaflokki í klassískum kraftlyftingum þar sem bekkpressusloppar og stálbrækur eru víðsfjarri og þyngdirnar teknar „á kjötinu“ sem kallað er.
„Ég ætlaði mér nú ekki í 120 í dag [gær], hugsaði með mér að ef 115 færi upp færi ég í 117, en þar sem 115 fóru svo létt ákvað ég að fara í 120,“ segir Lucie af móti þar sem allar þyngdir ruku upp – ekki er það alltaf svo og dagsformið gamla góða oft mikill örlagavaldur, en Tékkinn hefur fengið betri hvíld en hún hugði eftir komu þriðju dótturinnar.
„Ég var mjög ánægð með deddið [réttstöðulyftuna], að ná þar 230 sem ég hef aldrei tekið áður. Ég á örugglega meira inni svo ég er bara spennt fyrir næstu mótum,“ segir Lucie sem hóf leika með 210 kíló í réttstöðunni og keyrði sig svo upp með tveimur öruggum lyftum í kjölfarið, 220 og 230 kg og kemur þar með út af Íslandsmeistaramótinu með 560 kg í samanlagðri þyngd.
Kveðst hún hafa fundið hvernig hún datt í gírinn á mótinu eftir barneignahléið, „Hinrik [Pálsson, formaður Kraftlyftingasambands Íslands og þjálfari meistaraflokks Stjörnunnar í kraftlyftingum,] sagði að ég skini eins og sólin,“ rifjar Lucie upp af gærdeginum. „Þetta var mjög krefjandi tími þetta síðasta eina og hálfa ár svo nú er ekkert fram undan annað en að bæta mig,“ segir hún.
Ekki er langt í bætingatækifærin því Lucie fer nú að leggja á ráðin fyrir Evrópumeistaramótið í Málaga á Spáni í mars og stefnir ótrauð á 580 kg í samanlögðu. „Það er næsta markmið,“ segir Tékkinn.
Lucie flutti sem fyrr segir til Íslands árið 2016 og ástæðan var einföld: „Ég varð ástfangin,“ segir hún hispurslaust, en sá heppni er Arnar Kári Þórhallsson. „Ég kom hingað fyrst sem au pair árið 2015 og var í hálft ár, svo fór ég til Bretlands í hálft ár en flutti svo hingað,“ segir hún frá.
Aðspurð kveður hún Arnar Kára meiri hlaupagarp en lyftingamann, „og svo er hann svona stuðningsfulltrúi fyrir mig, hvetur mig áfram og hjálpar mér“, segir lyftingakonan sem sjálf starfar sem lyftingaþjálfari auk þess að vinna á leikskóla.
Hóf hún að taka á stálinu árið 2020 og eins og sjá má á árangri helgarinnar var greinilega ekki aftur snúið. „Eftir að ég eignaðist mitt fyrsta barn byrjaði ég að æfa aðeins meira og reyna að styrkja mig,“ segir hún frá.
„Mig langaði að læra að lyfta og tók eftir því að ég var kannski aðeins sterkari en meðalmanneskjan og ákvað bara að prófa að æfa kraftlyftingar,“ útskýrir Lucie sem heillaðist af greininni eins og æ fleiri hafa gert undanfarið en sókn í kraftlyftingar hefur að sögn Hinriks Pálssonar og fleiri talsmanna Kraftlyftingasambandsins stigmagnast síðustu árin og hafa konur ekki síst laðast að íþróttinni og margar hverjar náð eftirtektarverðum árangri á mótum hérlendis sem úti í heimi.
Hvernig fannst þér að flytja til Íslands, voru þetta ekki viðbrigði miðað við Tékkland?
„Jú, Ísland er allt öðruvísi en löndin á meginlandi Evrópu,“ játar Lucie, „hér er erfitt að komast milli staða og svo fátt fólk,“ segir hún, komandi frá tæplega 300.000 íbúa borg sem þó er aðeins sú þriðja stærsta í Tékklandi, í Brno, næststærstu borg landsins, búa 400.000 manns og tæplega 1,4 milljónir í höfuðborginni Prag.
Einkum nefnir Lucie samgöngur, eilíft bitbein allra sveitarstjórnarkosninga á höfuðborgarsvæðinu, „mér fannst það alla vega fyrst. Í Evrópu er ekkert mál að labba milli margra staða í borgum og svo eru strætisvagnar og lestir alls staðar. Þessu tók tíma að aðlagast, en núna er ég mjög ánægð hérna, búin að venjast fólkinu og umhverfinu og öllu því sem snýr að íslensku lífi,“ segir Tékkinn sigri hrósandi.
Aðspurð kveðst hún í byrjun hafa átt í erfiðleikum með að ná sambandi við þjóðina. „Ég upplifði Íslendinga fyrst sem rólegt fólk sem var ekki mikið til í að spjalla og það fannst mér erfitt fyrst. Það var mjög erfitt að eignast vini og komast inn í samfélagið, það er samt allt komið í lag núna,“ segir Tékkinn og hlær við. Þetta hafi endað með því að hún hafi orðið lokaðri sjálf, þótt blaðamaður skynji þess engin merki í viðtalinu.
Hún kveður Íslendinga og Tékka ólíkar þjóðir. „Þið eruð alltaf með „þetta reddast“ og dálítið kyrrlátt fólk, Tékkar eru miklu stressaðri og skipuleggja sig meira fram í tímann,“ segir Lucie Stefaniková að lokum eftir stórleik á ÍM í klassískum kraftlyftingum um helgina og verður mjög forvitnilegt að sjá hverju fram vindur hjá þessari öflugu lyftingakonu sem vantar sárlega íslenskan ríkisborgararétt.