Matilde Lorenzi, efnileg skíðakona frá Ítalíu, er látin aðeins 19 ára að aldri eftir að hafa lent í slysi á æfingu.
Alþjóða skíða- og snjóbrettasambandið greindi frá í gær.
Lorenzi hrapaði á æfingu í Val Senales í ítölsku Ölpunum og slasaðist alvarlega. Var hún flutt með þyrlu á sjúkrahús í Bolzano þar sem hún lést af sárum sínum.
Sérgrein Lorenzi var stórsvig þar sem hún varð Ítalíumeistari ungmenna á síðasta ári auk þess að verða Ítalíumeistari ungmenna í samanlögðu.
Lorenzi keppti á HM ungmenna á síðasta tímabili og hafnaði þar í sjötta sæti í bruni og áttunda sæti í stórsvigi.
Eldri systir hennar, Lucrezia, hefur keppt á heimsbikarmótum í svigi. Hin íslenska Elín van Pelt keppti við Lucreziu á svigmóti á Nýja-Sjálandi í haust. Þar hafnaði Lucrezia í öðru sæti í og Elín í 17. sæti.