„Þetta var hrikalegt,“ sagði Jón Erik Sigurðsson, landsliðsmaður í alpagreinum, í samtal við mbl.is í dag en hann er staddur í Val Senalses á Ítalíu í æfingabúðum með íslenska landsliðinu.
Hin 19 ára gamla Matilde Lorenzi lést við æfingar á svæðinu á dögunum en Lorenzi lenti illa í brautinni og lést degi síðar af sárum sínum á spítala. Ítalska skíðakonan var unglingameistari í stórsvigi og átti framtíðina fyrir sér.
„Við sáum þetta ekki gerast en við vorum öll í fjallinu að æfa. Hún er komin úr mesta brattanum og inn á flata kaflann þegar hún fipast eitthvað. Hún keyrir út úr brautinni og í ótroðinn snjó sem hefur frosið og bráðnað til skiptis, í veðrinu síðustu daga. Snjórinn þar var glerharður og hún skellur í jörðina, á líklega 70-80 kílómetra hraða.
Þjálfararnir mæta strax til hennar og sjúkraliði úr fjallinu líka. Þeir hringja strax á þyrlu sem er mætt eftir hálftíma. Þjálfararnir og sjúkraflutningamaðurinn reyna að lífga hana við því hún var dáin þegar þeir koma að henni. Það tekst en svo deyr hún á spítalanum daginn eftir,“ sagði Jón Erik sem hefur æft skíði frá fjögurra ára aldri.
Íslenska landsliðið hefur æft á Ítalíu síðan 11. október en Jón segir síðustu daga hafa verið ansi erfiða.
„Þegar við komum að þessu þá var allt út í blóði og er enn. Það er ekki ennþá búið að moka yfir þetta sem er ótrúlegt. Við æfðum í sömu braut og hún var í daginn eftir og það var hræðilegt. Um leið og maður var kominn á svipaðan stað og hún fipast á, þá hægir maður ósjálfrátt á sér. Þú ert algjörlega með þetta á heilanum og ert svo reglulega minntur á þetta líka þegar þú ferð í lyftunni því það eina sem þú sérð er allt blóðið í brekkunni, þú kemst ekki hjá því að horfa á það því lyftan fer beint yfir brautina.
Við fengum áfallahjálp eftir þetta og tókum gott spjall, allt liðið. Við erum búin að vera að æfa síðustu daga sem hefur klárlega tekið á og það er ekki beint hægt að segja að maður sé að njóta æfinganna. Þetta er ennþá að trufla mann mikið en okkur var boðinn annar fundur með áfallateyminu ef þetta situr ennþá í okkur. Við erum ekki alveg búin að ákveða hvað við gerum en það er gott að vita af því að okkur stendur þetta til boða.“
Faðir Matilde, Adolfo Lorenzi, gagnrýndi staðarhaldara í Val Senalses vegna skorts á öryggi í fjallinu í viðtali við ítalska miðilinn Gazzetta dello Sport og Jón Erik tekur undir þá gagnrýni.
„Þetta er fyrsta slysið sem ég heyri af í stórsvigi. Maður heyrir reglulega af slysum í bruni þar sem keppendur eru á allt upp í 140 kílómetra hraða en þetta er annað. Ég trúði því ekki að þetta gæti gerst, hvað þá á sama stað og maður er sjálfur að æfa á, í sama fjalli og í sömu braut. Þetta gerist ekki heldur í brattanum, sem er hættulegasti hluti brautarinnar.
Það er samt alveg fáránlegt að það sé ekki búið að girða svæðið af á neinn hátt. Það var engu breytt í brautinni og engar aðvaranir settar upp í fjallinu. Ef það hefði til dæmis verið búið að girða bakkann af með netum, eins og er gert í keppnum, þá hefði þetta slys aldrei átt sér stað. Þá hefði hún endað í netinu, ekki utan brautar. Hún hefði auðvitað slasast, finnst mér líklegt, en hún væri á lífi í dag. Maður er hálffeginn að vera að fara heim á morgun,“ bætti Jón Erik við í samtali við mbl.is.