Játar heimilisofbeldi í garð eiginkonu

Stuart Hogg í leik með skoska landsliðinu.
Stuart Hogg í leik með skoska landsliðinu. AFP/Andy Buchanan

Stuart Hogg, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Skotlands í rúgbí, hefur játað að hafa beitt eiginkonu sína Gillian Hogg heimilisofbeldi yfir fimm ára skeið.

Réttarhöld áttu að hefjast í Selkirk í Skotlandi í gær en Stuart Hogg, sem er 32 ára og leikur nú með Montpellier í Frakklandi, játaði sök og reynist því ekki þörf á réttarhöldum. Stuart fær að vita hver refsing hans verður þann 5. desember næstkomandi.

Stuart og Gillian hafa verið skilin að borði og sæng síðan á síðasta ári og eru um þessar mundir í skilnaðarferli.

Fékk kvíðakast vegna áreitis

Fyrir rétti játaði hann að hafa beitt hana ofbeldi, öskrað á hana og blótað með ógnandi hætti, fylgst með ferðum hennar í gegnum síma hennar og sent ógnvekjandi skilaboð.

Eitt kvöldið sendi Stuart Gillian yfir 200 skilaboð á nokkrum klukkustundum þrátt fyrir að hún hafi beðið hann um að láta sig í friði. Skilaboðin urðu þess valdandi að Gillian fékk kvíðakast.

Hann gagnrýndi hana ítrekað fyrir að vera ekki skemmtileg þegar hann fór út á lífið með liðsfélögum sínum en hún vildi ekki koma með. Saman eiga þau fjögur börn.

Gillian kveðst hafa verið hrædd við Stuart þegar hann væri að drekka á kvöldin og óskað þess að morgun færi að renna upp svo runnið gæti af honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert