Hin ástralska Rachael Gunn, betur þekkt sem Raygun, hefur ákveðið að hætta keppni í breikdansi, nokkrum mánuðum eftir að hafa vakið heimsathygli á Ólympíuleikunum í París.
Raygun vakti athygli fyrir óhefðbundin dansspor þegar keppt var í breikdansi á Ólympíuleikum í fyrsta sinn síðastliðið sumar.
Í viðtali á áströlsku útvarpsstöðinni 2DayFM tilkynnti Raygun að hún hafi upphaflega ætlað að halda áfram að keppa en að reynslan hafi fengið svo á hana að hún hafi ákveðið að hætta.
Á Ólympíuleikunum fékk hún ekki eitt einasta stig í þremur umferðum og hlaut mikla gagnrýni fyrir úr ýmsum áttum.
Sérstaklega fór frammistaða Raygun fyrir brjóstið á dönsurum og þá sér í lagi breikdönsurum, sem þótti hún gera gys að greininni með danssporum sínum.
Raygun varði frammistöðu sína, kvaðst taka breikdans alvarlega og fannst gagnrýni og níð í sinn garð fara yfir strikið.