Fjölnir hafði betur gegn SFH í vítakeppni er liðin mættust á Íslandsmóti karla í íshokkí í Egilshöllinni í kvöld.
Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 4:4 og því réðust úrslitin í vítakeppni. Þar skoraði Fjölnir tvisvar og SFH aðeins einu sinni.
Leikurinn byrjaði með látum því staðan eftir fyrstu lotu var 4:3, SFH í vil. Heiðar Kristveigarson, Jerzy Gus, Björn Sigurðarson og Edgar Protcenko gerðu mörk SFH í lotunni.
Viggó Hlynsson, Viktor Svavarsson og Liridon Dupljaku skoruðu fyrir Fjölni. Ekkert var skorað í annarri lotu en Kristján Kristinsson jafnaði fyrir Fjölni undir lokin og tryggði liðinu framlenginguna.
Eitt stig fæst fyrir að komast í framlengingu og fékk SFH sitt fyrsta stig á Íslandsmótinu, en liðið er á sínu fyrsta tímabili.
SR er á toppnum með 15 stig, Fjölnir í öðru með ellefu stig, SA í þriðja með sex og SFH rekur lestina með eitt stig.