Skautafélag Akureyrar vann tvöfaldan sigur á Skautafélagi Reykjavíkur þegar félögin mættust bæði á Íslandsmóti karla og kvenna í Skautahöllinni á Akureyri í dag og kvöld.
Karlaliðin mættust fyrst og þar fóru leikar 4:2 fyrir SA. Hafþór Sigrúnarson kom SA yfir snemma en Hákon Magnússon jafnaði fyrir SR um miðjan annan leikhluta. Unnar Rúnarsson svaraði strax fyrir SA, 2:1, og í síðasta hlutanum komust Akureyringar í 4:1 með mörkum Andra Mikaelssonar og Orms Jónssonar. Kári Arnarsson lagaði stöðuna fyrir Reykvíkinga.
SR er eftir sem áður á toppi deildarinnar með 15 stig, Fjölnir er með 11, SA 9 og nýliðar SFH úr Hafnarfirði eru með eitt stig. SA á tvo leiki til góða á bæði SR og Fjölni.
Kvennaliðin léku á eftir og þar hafði SA betur, 2:1. Herborg Geirsdóttir og Anna Ágústsdóttir skoruðu fyrir Akureyringa á fyrsta korterinu en Gunnborg Jóhannsdóttir minnkaði muninn fyrir SR þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka.
Fjölnir er á toppi kvennadeildarinnar með 15 stig og á leik til góða á SA sem er með 14 stig og SR sem er með eitt stig.