Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza keppa fyrst allra í parakeppni fyrir Íslands hönd á Evrópumeistaramótinu á listskautum.
Um helgina keppti parið í fyrsta sinn saman en þau hafa eingöngu skautað saman síðan í júní á þessu ári. Þau tóku þátt á NRW Trophy í Dortmund í Þýskalandi en keppt var í tvo daga, fyrri daginn voru skylduæfingar í stuttu prógrammi og seinni daginn með frjálsu prógrammi. Til þess að ná lágmörkum á Evrópumeistaramót þurfa sameiginleg tæknistig úr stutta og frjálsa prógramminu að vera 75.00 stig.
Í gær fengu þau 26.41 stig í tæknieinkunn og 47.04 stig í heildina fyrir stutta prógrammið og í dag fengu þau 49.40 stig í tæknieinkunn og 93.46 stig samanlagt fyrir frjálsa prógrammið.
Samanlagt fengu þau 75.81 stig í tæknieinkunn og 140.50 í heildarstig sem skilaði þeim keppnisrétti á Evrópumeistaramótinu í parakeppni á listskautum sem fer fram í Tallin, Eistlandi, 28. janúar - 2. febrúar 2025.