Spánn úr leik og ferillinn á enda

Goðsögnin Rafael Nadal þakkar fyrir sig eftir síðasta leik sinn …
Goðsögnin Rafael Nadal þakkar fyrir sig eftir síðasta leik sinn á ferlinum í gær. AFP/Thomas Coex

Lið Spánar er úr leik á heimavelli sínum í Málaga í Davis Cup í tennis. Þar með er farsælum ferli Rafaels Nadals lokið.

Nadal hafði gefið það út að mótið yrði hans síðasta á ferlinum og laut spænska liðið í lægra haldi gegn því hollenska í átta liða úrslitum í gær.

Spánverjinn er 38 ára gamall og er einn fremsti tennisleikari sögunnar. Árangurinn bar þess glögglega vitni.

Nadal vann 22 stórmeistaratitla á ferlinum, tvö ólympíugull, 92 titla á ATP-mótaröðinni, fjóra Davis Cup-úrslitaleiki auk þess sem hann var í efsta sæti heimslistans í alls 209 vikur.

Þá var Nadal í 912 vikur samfleytt í topp tíu á heimslistanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert