Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, A-landsliðskona í alpagreinum, vann alþjóðlegt mót í svigi í Finnlandi í gær.
Hólmfríður náði öðrum besta tímanum eftir fyrri ferð og var í kjörstöðu til að gera atlögu að sigrinum í seinni ferðinni.
Hún gerði vel í seinni ferðinni og tryggði sér sigur í fyrstu keppni tímabilsins hjá Hólmfríði.
„Ég er mjög ánægð að byrja tímabilið á sigri hér í Finnlandi. Það er alltaf frábær tilfinning að sjá mikla vinnu skila sér. Reynslan nýttist mér lika vel þar sem þurfti að halda góðri einbeitingu í gegnum brautirnar,“ sagði Hólmfríður í viðtali við vefsíðu Skíðasambands Íslands.
„Aðstæður voru góðar en mikill ís og nokkuð sleipur klaki stóran hluta brautarinnar sem gerði þetta afar krefjandi. Ég er verulega spennt fyrir keppnistímabilinu og vona að fólk fylgist með okkur í íslenska landsliðinu í vetur,“ sagði Hólmfríður að lokum.