Sturla Snær Snorrason tók skíðin af hillunni í haust eftir langa pásu og æfir nú með landsliði Íslands.
Keppnistímabilið byrjaði hjá Sturlu um helgina og keppt var í svigi í brautinni í Suomu og ræsti Sturla númer 66 í dag.
Eftir fyrri ferðina var Sturla í 5. sæti en hann gerði gott betur og átti lang besta tímann í seinni ferðinni sem skilaði honum samanlagt í 2. sæti.
Hann gerði 29,26 FIS punkta sem er veruleg bæting á heimslista og ekki langt frá hans besta móti á ferlinum.
„Þetta var áskorun en það var mikill ís í brautinni. Það hefur yfirleitt hentað mér vel en var klárlega aðeins erfiðara eftir þessa pásu. Tilfinningin að komast á pall var góð og ég fann fyrir létti. Það er gott að sjá hvar maður stendur skíðalega séð og koma sér aftur í gang. Ég á klárlega mikið inni, þetta er bara byrjunin,“ sagði Sturla eftir keppnina í dag.