Kvennasveit Íslands í 4x200 metra skriðsundi setti Íslandsmet í dag á Norðurlandamótinu í sundi sem hófst í Vejle í Danmörku í morgun en þar kræktu íslensku keppendurnir í fern verðlaun.
Sveitin hreppti silfurverðlaunin í sundinu og synti á 8:15,42 mínútum. Sveitina skipuðu þær Eva Margrét Falsdóttir, Sólveig Freyja Hákonardóttir, Nadja Djurovic og Freyja Birkisdóttir.
Sólveig Freyja komst líka á verðlaunapall í 200 metra flugsundi í unglingaflokki en þar synti hún á 2:19,40 mínútum og fékk bronsverðlaun.
Freyja Birkisdóttir og Katja Lilja Andriysdóttir komust báðar á verðlaunapall í 400 metra skriðsundi fullorðinna. Freyja fékk silfrið á 4:19,33 mínútum og Katja bronsið á 4:22,24 sekúndum.