Hótaði að birta sjúkrasögu Schumachers

Michael Schumacher.
Michael Schumacher. AFP

Þjóðverjinn Markus Fritsche, fyrrverandi lífvörður ökuþórsins fyrrverandi Michaels Schumachers, þarf að mæta fyrir þýska dómstóla í Wuppertal síðar í mánuðinum en honum er gefið að sök að hafa reynt að kúga fé út úr Schumacher og fjölskyldu hans.

Það er ESPN sem greinir frá þessu en Fritsche var sagt upp störfum fyrr á þessu ári eftir átta ár í starfi. Hann tók uppsögninni ekki vel og stal meðal annars trúnaðargögnum af heimili Schumacher-fjölskyldunnar.

Trúnaðargögnin innihéldu meðal annars sjúkrasögu Schumachers sem lenti í alvarlegu skíðaslysi í frönsku Ölpunum í desember árið 2013 en honum var haldið sofandi í tæplega ár eftir slysið og er lítið vitað um ástand hans núna.

Stálu 1.500 skjölum

Fritsche, ásamt Yilmaz Tozturkan og Daniel Lins, syni Tozsturkan, er gefið að sök að hafa reynt að kúga alls 15 milljónir evra af Corinnu, eiginkonu Schumachers en ef ekki yrði gengið að kröfum þeirra myndu þeir birta öll gögnin á veraldarvefnum, þar með talda sjúkrasögu Schumachers.

Alls stálu þeir félagar um 1.500 skjölum af heimilinu sem þeir komu fyrir á fjórum USB-lyklum en þremenningarnir settu sig í samband við Schumacher-fjölskylduna í júní á þessu ári.

Svissnesk yfirvöld röktu samtalið til þremenninganna þriggja síðar í júnímánuði og voru þeir allir handteknir skömmu síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka