Þorri hafði betur gegn Ásgeiri

Þorri Jensson mundar kjuðann.
Þorri Jensson mundar kjuðann.

Þorri Jensson stóð uppi sem sigurvegari í 5. stigamóti mótaraðarinnar í snóker sem lauk á Billiardbarnum í gær.

Þorri lagði Ásgeir Jón Guðbjartsson að velli í úrslitaleik 3:1.

Óhætt er að segja að sigurinn sé kærkominn hjá Þorra, sem hefur í tvígang tapað úrslitaleikjum í stigamótum vetrarins og í bæði skiptin gegn Sigurði Kristjánssyni.

Þeir áttust einmitt við í undanúrslitum en leikurinn var ekki fyrir hjartveika. Þannig vann Þorri fyrsta rammann eftir að hafa gert stuð upp á 81 en Sigurður svaraði með stuði upp á 102 og jafnaði leikinn. Þorri vann svo næsta ramma en Sigurður jafnaði aftur. Að lokum náði Þorri að leggja Sigurð að velli eftir spennandi oddaramma.

Þetta þýddi jafnframt að í fyrsta sinn í vetur myndi Sigurður ekki vinna stigamót sem hann tekur þátt í en fyrir mótið í dag hafði hann unnið þrjú stigamót.

Í hinum undanúrslitaleiknum í dag glímdi Ásgeir Jón við hinn þrautreynda Brynjar Valdimarsson og þar var spennan síst minni. Þeir skiptust á að vinna ramma en á endanum var það Ásgeir Jón sem vann oddarammann á síðustu kúlunum.

Í úrslitaleiknum byrjaði Ásgeir Jón af miklum krafti og komst í 1:0 en Þorri var staðráðinn í að vinna mótið, svaraði með því að vinna næstu þrjá ramma og tryggja sér um leið sigur í mótinu.

Billiardssambandið slær ekki slöku við á aðventunni því um næstu helgi verður 5. stigamótið í pool og helgina þar á eftir verður 6. stigamótið í snóker.

Ásgeir Jón Guðbjartsson mundar kjuðann.
Ásgeir Jón Guðbjartsson mundar kjuðann.
Þorri og Ásgeir að mótinu loknu.
Þorri og Ásgeir að mótinu loknu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka