Alina Zagitova, ein allra besta skautakona heims, á erfitt með að halda sér réttu megin við lögin þegar hún sest undir stýri.
Sport-Express greinir frá því í dag að Zagitova hafi verið sektuð 197 sinnum af rússnesku lögreglunni á árinu fyrir umferðarlagabrot.
Zagitova varð ólympíumeistari árið 2018 og þá hefur hún einnig orðið heims- og Evrópumeistari í listdansi á skautum.
Samkvæmt Sport-Express hefur Zagitova verið sektuð 554 sinnum fyrir umferðalagabrot frá árinu 2019. Í 401 skipti var það fyrir of hraðan akstur en hún hefur einnig verið sektuð fyrir að keyra yfir á rauðu ljósi.
Hún hefur samtals verið sektuð um tæplega 500.000 rúblur, eða tæplega 700.000 krónur.
Zagitova fékk bíl að launum frá rússneskum stjórnvöldum eftir ólympíumeistaratitilinn þegar hún var aðeins 16 ára. Hún birti myndbönd af sér keyra bílinn án bílbeltis, þrátt fyrir að hún væri ekki komin með bílpróf skömmu síðar.