Hlynur Stefánsson bar sigur úr býtum í fimmta stigamótinu í mótaröðinni í pool en mótinu lauk í gær á Billiardbarnum. Í úrslitaleiknum mætti Hlynur þjálfara sínum Alan Trigg.
Svo virðist sem eggið sé farið að kenna hænunni því Hlynur hafði betur, 8:7.
Í undanúrslitum lagði Hlynur Daða Má Guðmundsson að velli 8:3 á meðan Alan lagði Magnús Grétar Árnason með sama mun.
Fyrir mótið um helgina hafði Hlynur unnið tvö stigamót en Alan eitt. Báðir eru þeir Íslandsmeistarar í pool en Hlynur er handhafi Íslandsmeistaratitilsins í 8-ball og 10-ball. Alan er hins vegar ríkjandi Íslandsmeistari í 9-ball en um helgina var einmitt keppt í 9-ball.
Flestir reiknuðu því með jöfnum og spennandi úrslitaleik. Hlynur byrjaði hins vegar af miklum krafti, komst í 7:1 og þurfti því að vinna einn ramma í viðbót til að vinna mótið. En þá vaknaði Alan til lífsins og gerði sér lítið fyrir og jafnaði metin 7:7. Alan var svo á góðri leið í úrslitarammanum en lenti í erfiðri stöðu þegar tvær kúlur voru eftir. Þetta nýtti Hlynur sér, hreinsaði borðið og tryggði sér sigurinn um leið.
Síðasta mótið hjá Billiardsambandi Íslands fyrir jólafrí verður svo á dagskrá um næstu helgi þegar sjötta stigamótið í snóker fer fram á Snóker & poolstofunni.