Ólympíska lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir úr Lyftingafélagi Reykjavíkur var í dag útnefnd íþróttakona Reykjavíkur árið 2024. Handboltamaðurinn Benedikt Gunnar Óskarsson var valinn íþróttakarl Reykjavíkur og karlalið Vals í handbolta var valið íþróttalið Reykjavíkur.
Verðlaunafhendingin fór fram í ráðhúsi Reykjavíkurborgar í dag. Umsagnir um sigurvegarana úr tilkynningu Íþróttabandalags Reykjavíkur eru sem hér segir:
Eygló Fanndal Sturludóttir
Eygló Fanndal varð þrefaldur Evrópumeistari ungmenna 23 ára og yngri með nýju persónulegu meti og fékk jafnframt verðlaun sem stigahæsti kvenkyns keppandi mótsins. Hún varð Norðurlandamestari í -71 kg fullorðinsflokki í samanlögðum árangri, setti fjögur norðurlandamet og var jafnframt stigahæsti kvenkyns keppandi mótsins. Eygló setti sex Íslandsmet á árinu í fullorðins flokki og sex Íslandsmet í flokki 23 ára og yngri. Hún varð Íslandsmeistari í -71 kg flokki kvenna og var afar nálægt því að tryggja sig inn á Ólympíuleikana. Eygló hefur bætt sig gríðarlega á árinu og tók þátt í hinum ýmsu mótum erlendis með góðum árangri.
Benedikt Gunnar Óskarsson
Benedikt Gunnar spilaði stórt hlutverk í Bikar- og Evrópubikarmeistaraliði Vals á árinu. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði 17 mörk í bikarúrslitaleiknum gegn ÍBV í mars og sló þá 22 ára gamalt markamet. Benedikt Gunnar var valinn besti leikmaður efstu deildar karla og snemma á árinu samdi hann við Noregsmeistara Kolstad frá Þrándheimi þar sem hann spilar m.a. í Meistaradeild Evrópu. Undanfarin misseri hefur Benedikt Gunnar verið hluti af A landsliðs hóp karla.
Meistaraflokkur karla Vals í handbolta
Valur átti frábært tímabil og eru bikarmeistarar 2024. Hápunktur tímabilsins verður að teljast frábær sigur Vals í Evrópubikarkeppni karla en þar sigraði liðið sterkt lið Olympiacos í úrslitum keppninnar en úrslit réðust ekki fyrr en eftir vítakastkeppni á erfiðum útivelli í Grikklandi.