Snæfríður sló Íslandsmetið aftur á HM

Snæfríður Sól Jórunnardóttir eftir sundið í Búdapest í dag.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir eftir sundið í Búdapest í dag. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Snæfríður Sól Jórunnardóttir setti sitt annað Íslandsmet í 100 metra skriðsundi með nokkurra klukkutíma millibili en rétt í þessu keppti hún í undanúrslitum á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug í Búdapest.

Snæfríður synti á 52,68 sekúndum í undanúrslitunum en í morgun sló hún Íslandsmet sitt rækilega í undanrásunum þegar hún hafnaði í ellefta sæti á 52,77 sekúndum. Sextán bestu af 79 keppendum í greininni komust í undanúrslitin.

Hún synti í seinni riðli undanúrslitanna nú síðdegis og varð í sjötta sæti af átta í riðlinum, og samtals í þrettánda sæti af þeim sextán sem komust þangað.

Gretchen Walsh frá Bandaríkjunum vann riðil Snæfríðar og fékk besta tímann í undanúrslitunum, 50,49 sekúndur.

Snæfríður verður aftur á ferðinni á sunnudaginn, á lokadegi mótsins, þegar hún keppnir í aðalgrein sinni, 200 metra skriðsundinu.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir á fullri ferð í undanúrslitunum í dag.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir á fullri ferð í undanúrslitunum í dag. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic
Snæfríður Sól Jórunnardóttir á bakkanum í Búdapest í dag.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir á bakkanum í Búdapest í dag. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert