Nýtt Íslandsmet í fjórsundi

Íslenska boðsundssveitin sem setti Íslandsmet.
Íslenska boðsundssveitin sem setti Íslandsmet. Ljósmynd/SSÍ

Sveit Íslands synti gríðarlega vel á lokadegi HM25 þegar hún setti nýtt Íslandsmet í 4x100m fjórsundi. Sveitin bætti Íslandsmetið í greininni um rúmar fimm sekúndur þegar hún synti á tímanum 3:33,68.

Gamla metið var frá árinu 2016, 3:39,48, sett á HM25 í Windsor í Kanada. Sveitina skipuðu þeir Guðmundur Leo Rafnsson, Snorri Dagur Einarsson, Birnir Freyr Hálfdánarson og Símon Elías Statkevicius, Höfnuðu þeir í 23. sæti.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir synti í morgun sína aðalgrein, 200m skriðsund, á tímanum 1:55,48 og varð í 14. sæti. Snæfríður komst ekki áfram í úrslit þar sem reglurnar á HM25 eru þannig að það eru eingöngu 8 sem komast í úrslit í 200m greinum, en ekki 16 eins og á HM50, EM50, og EM25. 

Þess má geta að Íslandsmet Snæfríðar, 1:54,23, hefði nægt henni inn í úrslita sundið síðar í dag. Engu að síður flottur árangur hjá Snæfríði á HM25 en hún tvíbætti Íslandsmet sitt í 100m skriðsundi og varð þar í 13. sæti. Snæfríður var einnig í blönduðu boðsundsveitunum tveim sem settu Íslandsmet á mótinu.

Guðmundur Leo Rafnsson synti mjög vel 200m baksund og bætti tíma sinn í greininni þegar hann synti á 1:55,27. Gamli tími hans var 1:55,79. Guðmundur Leo nálgast nú óðfluga 25 ára gamalt unglingamet Arnar Arnarsonar, sem er 1:54,23. Guðmundur varð í 25. sæti á sínu fyrsta stórmóti.

Þá hafa íslensku keppendurnir lokið keppni á HM25 í Búdapest með virkilega fínum árangri. Fimm íslandsmet, eitt unglingamet og margar persónulegar bætingar. Mótið í ár var gríðarlega sterkt en nú þegar hafa verið sett 22 heimsmet og enn er einn úrslitahluti eftir. Ekki verið sett þetta mörg heimsmet síðan 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert