Íslandsmeistari fallinn frá

Ásgrímur Gunnar Egilsson með trommukjuða og trommu á leik með …
Ásgrímur Gunnar Egilsson með trommukjuða og trommu á leik með Fram. Ljósmynd/Fram

Ásgrímur Gunnar Egilsson, þrefaldur íslandsmeistari í hnefaleikum, er látinn aðeins 31 árs að aldri. Ásamt því að vera öflugur bardagakappi var hann dyggur stuðningsmaður karlaliðs Fram í knattspyrnu.

Bardagafélagið VBC minnist Ásgríms, sem varð Íslandsmeistari í hnefaleikum árin 2017, 2018 og 2019, á Facebook-síðu sinni.

„Ásgrímur Gunnar Egilsson lést síðastliðinn föstudag langt fyrir aldur fram. Ási eins og hann var kallaður byrjaði að æfa hjá okkur 2016 og leið ekki að löngu þar til að hann var byrjaði að keppa með góðum árangri.

Ási sýndi strax að hann var mikill keppnismaður og var alltaf til í að stíga í hringinn þrátt fyrir að andstæðingurinn væri mikið reyndari. Hann gafst aldrei upp og gaf alltaf allt í bardagann.

Ási var stór partur af okkur í VBC og hans verður sárt saknað. Við vottum fjölskyldu og vinum okkar dýpstu samúðarkveðjur, minning hans mun lifa með okkur,“ sagði meðal annars í færslu VBC Bardagaíþrótta.

Trommaði í hvaða veðri sem var

Fram minnist hans einnig, en Ásgrímur barði trommur á leikjum karlaliðsins hvernig sem viðraði.

„Ási var einstakur gleðigjafi og trommaði á leikjum, í hvaða veðri sem var. Við sendum fjölskyldu hans okkar dýpstu samúðarkveðjur,“ sagði meðal annars í færslu knattspyrnudeildar Fram á X.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert