Thelma og Valgarð best annað árið í röð

Thelma Aðalsteinsdóttir og Valgað Reinhardsson eru fimleikafólk ársins.
Thelma Aðalsteinsdóttir og Valgað Reinhardsson eru fimleikafólk ársins. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Valgarð Reinhardsson og Thelma Aðalsteinsdóttir sem keppa bæði í áhaldafimleikum fyrir hönd Gerplu, hafa verið út­nefnd fim­leika­kona og fim­leika­karl árs­ins 2024 af Fim­leika­sam­bandi Íslands.

Þetta er annað árið í röð þar sem þau eru valin best.

Valgarð varði Íslandsmeistaratitilinn sinn sem var hans áttundi á ferlinum og keppti á EM, NM og heimsbikarsmóti á árinu og stóð sig vel. Valgarð er í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu sem átti gott ár. Á EM lenti liðið í 19. sæti sem er besti árangur liðsins í sögunni og liðið lenti í þriðja sæti á NM, auk þess varð Valgarð Norðurlandameistari á gólfi

Thelma átti frábært ár og vann til verðlauna á öllum áhöldum á Norður-Evrópumótinu og fékk silfurverðlaun í fjölþraut.

Hún er Íslandsmeistari í fjölþraut og á stökki, slá og gólfi, bikarmeistari með Gerplu og fastakona í íslenska landsliðinu. Með liðinu varð hún Norðurlandameistari með íslenska liðinu og sjálf Norðurlandameistari á gólfi.  

Lið ársins var íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum sem varð Evrópumeistari í fjórða sinn. Liðið lenti öll stökk sín á mótinu og unnu dýnu og gólfæfingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert