Ástralski tennisleikarinn Max Purcell er kominn í ótímabundið bann frá öllum afskiptum af íþróttinni eftir að hafa viðurkennt lyfjamisferli.
Purcell er 26 ára og hefur borið sigur úr býtum á Wimbledon og Opna bandaríska meistaramótinu í tvíliðaleik.
Hann tilkynnti ITIA, samtökum sem sjá um að framfylgja reglum Alþjóðalyfjaeftirlitsins, WADA, fyrir hönd tennisíþróttarinnar sjálfur um brot sitt. Að eigin sögn snýr brotið að því að Purcell hafi að sér óafvitandi farið yfir leyfilegt magn af vítamínum sem hann fékk í æð.
Purcell kveðst hafa gert ITIA viðvart þegar hann fékk sjúkraskýrslur sínar í hendurnar í síðustu viku.
Ekki hefur verið gefið út hversu langt bann Purcells verður en ótímabundið bannið tók gildi 12. desember og áður en ITIA tekur endanlega ákvörðun mun sú dagsetning gilda sem upphafsdagur þegar lengd bannsins liggur fyrir.