Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Guðmundur Karlsson, framkvæmdastjóri Frjálsíþróttasambands Íslands og íþróttafræðingur, á athyglisverðan feril að baki í íslensku íþróttalífi sem keppandi og þjálfari.
Guðmundur setti Íslandsmet í sleggjukasti hinn 24. júlí árið 1994 á Meistaramóti Íslands í frjálsum sem fram fór á Laugardalsvelli. Bætti þá eigið met og gerði það raunar tvívegis í keppninni. Setti met bæði í öðru og þriðja kasti og flaug sleggjan lengst 66,28 metra.
Íslandsmetið stóð í 13 ár eða þangað til Bergur Ingi Pétursson sló það árið 2007 en báðir kepptu þeir fyrir FH. Guðmundur hafði fyrst eignast metið árið 1989.
Guðmundur var ekki við eina fjölina felldur í afreksíþróttunum og þegar hann setti metið var hann einnig þjálfari karlaliðs FH í handknattleik. Stefán Eiríksson, núverandi útvarpsstjóri, ræddi við Guðmund fyrir Morgunblaðið að MÍ loknu og þar kemur fram að Guðmundur hafði lofað því að setja nýtt met á keppnistímabilinu.
„Ég sá fram á að ég þyrfti að bæta metið í dag því við erum að byrja í handboltanum og því hef ég engan tíma í ágúst,“ er haft eftir Guðmundur í Morgunblaðinu 26. júlí 1994.
Meðfylgjandi mynd af Guðmundi er ekki tekin í Laugardalnum heldur í Mosfellsbænum. Þar er Guðmundur í hringnum að keyra upp hraðann en myndina tók Einar Falur Ingólfsson sem oft hefur komið við sögu í Gömlu ljósmyndinni.
Guðmundur var landsliðsþjálfari í frjálsum frá 1988-1990 og aftur 2002-2004. Hann hefur þjálfað landslið í tveimur greinum því hann hefur þjálfað yngri landslið í handknattleik.
Þjálfaraferill Guðmundur í handknattleiknum reis ef til vill hæst þegar hann gerði Hauka að Íslandsmeisturum árið 2000 og þótti nokkuð óvænt. Karlalið félagsins hafði þá ekki orðið Íslandsmeistari í íþróttinni í 57 ár. Var þá hátt sungið Heims um ból, eins og máltækið segir, í íþróttahúsinu við Strandgötu.
Fyrir þá sem hafa gaman að ættfræði í íþróttalífinu þá lék dóttir Guðmundur 67 A-landsleiki í handknattleik: Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir.