Handknattleikssamband Íslands fær áfram hæstu úthlutunina úr Afrekssjóði ÍSÍ fyrir árið 2025 en þó minna en á árinu 2024.
Heildarúthlutun fyrir árið 2025 nemur 519,4 milljónum króna og hækkar um sjö milljónir frá árinu 2024.
HSÍ fær rúmlega 72,5 milljónir króna í sinn hlut en það er þó rúmum 12 milljónum minna en á síðasta ári.
Knattspyrnusamband Íslands sendi inn umsókn vegna verkefna ársins 2025 en var hafnað. Í frétt á vef Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, segir um þá ákvörðun:
Þrátt fyrir að KSÍ sé flokkað sem afrekssérsamband ÍSÍ og fer þar fremst í flokki á mörgum sviðum fær sambandið ekki styrk við þessa úthlutun. Er þar, líkt og síðustu ár, horft til fjárhagslegrar stöðu sérsambandsins og vísað til heimilda sem eru í reglugerð sjóðsins varðandi slíka ákvörðunartöku.
Hvað varðar úthlutun á því fjármagni sem enn á eftir að úthluta vegna ársins 2025 og byggir á nýjum áherslum í afreksstarfi, samkvæmt skýrslu fyrrnefnds starfshóps, er horft til þess að KSÍ muni njóta stuðnings. Enn á þó eftir að útfæra frekari styrkveitingar vegna ársins.
Fimleikasamband Íslands kemur næst á eftir HSÍ með 46,4 milljónir króna og Skíðasamband Íslands er skammt undan með 44,5 milljónir.
Alls fengu 32 sérsambönd úthlutað úr sjóðnum, af þeim 33 sem sóttu um styrkinn.
Úthlutunin í heild seinni er sem hér segir, í milljónum króna:
72,5 Handknattleikssamband Íslands
46,4 Fimleikasamband Íslands
44,5 Skíðasamband Íslands
39,2 Körfuknattleikssamband Íslands
34,7 Golfsamband Íslands
33,5 Sundsamband Íslands
33,1 Frjálsíþróttasamband Íslands
24,8 Kraftlyftingasamband Íslands
24,3 Íþróttasamband fatlaðra
17,0 Lyftingasamband Íslands
16,6 Bogfimisamband Íslands
15,7 Keilusamband Íslands
13,0 Dansíþróttasamband Íslands
12,6 Badmintonsamband Íslands
11,8 Íshokkísamband Íslands
11,8 Skotíþróttasamband Íslands
11,3 Landssamband hestamannafélaga
8,6 Skylmingasamband Íslands
7,5 Klifursamband Íslands
6,8 Blaksamband Íslands
6,3 Júdósamband Íslands
5,3 Karatesamband Íslands
4,6 Taekwondosamband Íslands
3,9 Þríþrautarsamband Íslands
1,9 Hjólreiðasamband Íslands
1,7 Akstursíþróttasamband Íslands
1,7 Borðtennissamband Íslands
1,7 Hnefaleikasamband Íslands
1,7 Skautasamband Íslands
1,7 Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasamband Íslands
1,7 Siglingasamband Íslands
1,7 Tennissamband Íslands
Úthlutun Afrekssjóðs