Ólympíuverðlaunahafi beittur rafbyssu

Trayvon Bromell, Fred Kerley og Marvin Bracy með verðlaunapeninga sína …
Trayvon Bromell, Fred Kerley og Marvin Bracy með verðlaunapeninga sína eftir úrslitin í 100 metra hlaupi í París í sumar. AFP/Jewel Samad

Bandaríski spretthlauparinn Fred Kerley, sem vann til bronsverðlauna í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í París í sumar, var beittur rafbyssu og svo handtekinn eftir að kastaðist í kekki milli hans og lögregluþjóna í Miami í Flórídaríki.

Kerley, sem er 29 ára gamall, stendur meðal annars frammi fyrir því að vera ákærður fyrir líkamsárás og að veita lögreglu mótspyrnu.

Samkvæmt lögregluskýrslu voru lögregluþjónar að rannsaka ótengt mál þegar Kerley veittist að þeim „með offorsi“ vegna áhyggna af bifreið sinni. Samkvæmt skýrslunni hafi Kerley svo stöðugt veitt lögregluþjónunum mótspyrnu og veitt sér undan þeim til þess að forðast handtöku.

Fjórir lögregluþjónar náðu svo að yfirbuga Kerley. Myndefni úr líkamsmyndavél eins lögregluþjónanna sýnir Kerley svo standa upp að nýju áður en þeir beita rafbyssu gegn honum, sem varð þess valdandi að Kerley féll aftur til jarðar og var svo í kjölfarið færður í fangageymslu.

Honum hefur verið sleppt lausum gegn tryggingu en samkvæmt lögmanni hans var atvikið „algjör misskilningur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert