Undrabarnið segir enga pressu á sér

Luke Littler.
Luke Littler. Ljósmynd/Alþjóða pílusambandið

Luke Littler getur í kvöld orðið yngsti heimsmeistari í sögu pílukasts þegar hann mætir Hollendingnum Michael van Gerwen í úrslitaleik í Alexandra Palace í Lundúnum.

Littler, sem er aðeins 17 ára, skaust upp á stjörnuhimininn á síðasta heimsmeistaramóti þegar hann komst alla leið í úrslit en tapaði fyrir nafna sínum Luke Humphries.

„Ég tel að það sé engin pressa á mér. Ég er viss um að Michael hafi sagt það sama. Ég ætla bara að njóta og vonandi vinna fyrsta sett eins og í [gær]kvöld.

Ef ég geri það ekki kem ég til baka, næ vonandi að breyta til og laga það sem aflaga fer,“ sagði Littler á fréttamannafundi eftir 6:1-sigur á Stephen Bunting í undanúrslitum í gærkvöldi.

Hollendingurinn sá yngsti

Van Gerwen er yngsti heimsmeistari í sögunni en Hollendingurinn áorkaði því þegar hann var 24 ára gamall og hefur alls unnið þrjá heimsmeistaratitla.

Spurður hvort hann væri orðinn betri en van Gerwen sagði Littler:

„Ég hef í raun ekki séð hvað Michael hefur verið að gera. Ég hef bara séð þegar hann hefur náð 180 stigum. Ég þarf bara að einbeita mér að morgundeginum og gera allt rétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert