Björg eldhugi ársins

Björg Elín Guðmundsdóttir varð fyrir valinu.
Björg Elín Guðmundsdóttir varð fyrir valinu. Ljósmynd/Samsett

Björg Elín Guðmundsdóttir hjá handknattleiksdeild Vals og HSÍ var í kvöld valin eldhugi ársins á árlegu hófi samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Hófið fór fram í 69. skipti í Hörpu í kvöld. Viðurkenninguna fær sá eða sú sem hefur skarað fram úr í sjálfboðaliðastarfi hjá sínu félagi.

„Björg æfði og spilaði handbolta með Val og aðstoðaði einnig við þjálfun um tíma. Þegar leikmannaferlinum lauk bauð hún fram krafta sína sem sjálfboðaliði. Hún tók stóran þátt í starfi HSÍ, sat í stjórn, var í landsliðsnefndum og var liðstjóri. Hjá Val gegndi hún svipuðum störfum en hefur meira og minna verið liðstjóri meistaraflokks kvenna hjá Val frá árinu 1999, þó með nokkrum hléum.

Hún er einstaklega fórnfús, umhyggjusöm og metnaðargjörn fyrir hönd sinna liða og leggur allt í verkefnin sem hún tekur sér fyrir hendur. Hennar sjálfboðaliðaferill spannar rúmlega 40 ár, Björg verður 75 ára á þessu ári og starfar enn sem liðstjóri hjá kvennaliði Vals í handbolta,“ segir í umfjöllun um Bjögu á Facebook-síðu ÍSÍ. 

Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, og Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur voru einnig tilnefndir.

Björg er þriðji sjálfboðaliðinn sem hlýtur nafnbótina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert