Sóley Margrét Jónsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Eygló Fanndal Sturludóttir eru í þremur efstu sætunum í kjörinu um íþróttamann ársins 2024.
Samtök íþróttafréttamanna afhenda í kvöld viðurkenninguna Íþróttamaður ársins í 69. skipti í árlegu hófi samtakanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem haldið er í Hörpu í Reykjavík að þessu sinni.
Glódís átti magnað ár með félagsliði sínu Bayern München í Þýskalandi, þar sem hún er fyrirliði. Glódís missti ekki úr leik er liðið varð þýskur meistari og lék gríðarlega vel. Þá er hún einnig landsliðsfyrirliði.
Sóley varð heimsmeistari í kraftlyftingum með búnaði í +84 kg flokki og sló heimsmet 23 ára og yngri.
Eygló varð Evrópumeistari 23 ára og yngri í -71 kg flokki og sló Norðurlandamet í fullorðinsflokki. Þá varð hún í fjórða sæti á HM fullorðinna.