Hestamaðurinn Sigurbjörn Bárðarson var í kvöld tekinn inn í Heiðurshöll íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og er hann 26. íþróttamaðurinn sem fær sæti þar frá stofnun hallarinnar árið 2012.
Sigurbjörn er margfaldur Íslands- og heimsmethafi í skeiðgreinum. Hann vann þrettán gullverðlaun á heimsmeistaramótum og 120 Íslandsmeistaratitla.
Hann vann síðasta titilinn 2022, þá sjötugur. Sigurbjörn hefur verið landsliðsþjálfari Íslands undanfarin sjö ár.
Þá var hann kjörinn íþróttamaður ársins árið 1993 og hefur fimm sinnum verið á meðal tíu efstu í kjörinu.