Orven Christian Destacamento bar sigur úr býtum í fyrsta móti ársins og því sjötta í vetur, í mótaröðinni í pool sem fram fór á Snóker og Pool um helgina.
Í úrslitaleik lagði hann Daða Má Guðmundsson að velli með nokkuð sannfærandi hætti, 7:2. Þetta er annað stigamótið sem Orven Christan vinnur í vetur.
Þetta var sjötta stigamót vetrarins í pool og að þessu sinni var keppt í 10-ball. Fjórtán leikmenn mættu til leiks og var fyrirkomulagið þannig að leikmenn féllu úr leik eftir tvo tapleiki.
Undanúrslitaleikirnir voru æsispennandi en Orven Christian lagði Guðbjart Ísak Ásgeirsson að velli 7:6 á meðan Daði Már lagði Guðmund Birgisson 7:5.