Þórður Árni Hjaltested, formaður Íþróttasambands fatlaðra, er eldri en tvævetur í faginu og var mættur á sína níundu Paralympics-leika í París á síðasta ári.
„Ég hef farið á sjö sumarleika og tvenna vetrarleika. Ég hef verið formaður ÍF frá 2017 og átt sæti í stjórn ÍF frá 1986. Ég byrjaði á að fara til Seúl 1988 og það eru tvennir leikar sem ég hef ekki farið á síðan þá. Þetta eru alls níu leikar,“ sagði Þórður Árni í samtali við Morgunblaðið.
Á þeim tæpu fjóru áratugum sem Þórður Árni hefur starfað fyrir Íþróttasamband fatlaðra og sinnt ýmsum verkefnum hefur hann orðið vitni að miklum breytingum hvað varðar íþróttir fatlaðra og áhuga á þeim.
„Það hefur orðið mikil framþróun og gæðin hafa aukist mikið. Það sem er líka athyglisvert og við tókum sérstaklega eftir á leikunum 2012 í London er áhugi almennings í því landi þar sem þeir eru haldnir.
Ég myndi segja að á leikunum í London og í París, þeim sem hafa verið haldnir í Evrópu, sé eftirtektarvert hve vel er mætt í hallirnar og nánast uppselt. Í Peking 2008 og Ríó 2016 var fullt á ákveðnar íþróttir en ekki alveg allar. Í London og í París virtist vera uppselt alls staðar,“ sagði Þórður Árni.
„Jafnframt hefur það ruðningsáhrif. Í Bretlandi hafði þetta mikil áhrif. Það er það sem IPC hefur verið að vinna að með Sameinuðu þjóðunum og ýmsum þeim félagasamtökum sem eru á bak við fatlaða til að gera sýnilega getu einstaklinga með fatlanir til hvaða verka sem er.
Að sýna fram á hvað þessir einstaklingar geta en ekki hvað þeir geta ekki. Það hefur mjög jákvæð áhrif og hafði mikil ruðningsáhrif í Bretlandi á sínum tíma. Atvinnulífið varð til dæmis miklu virkara í því að ráða einstaklinga með fatlanir til starfa. Það var mjög jákvætt á allan hátt,“ hélt hann áfram.
Íslenskt mál er í stöðugri þróun og á það sannarlega við hvað viðkemur íþróttum fatlaðra.
„Á ensku nota Sameinuðu þjóðirnar og allt það fólk enska orðið „disability“ eða „disabled“. Okkar íþróttamenn vilja gjarna að það sé talað um þá sem bara íþróttamenn, ekki með viðhenginu „fatlaðir“.
Við höfum tekið eftir því á Norðurlöndunum að samböndin hafa breytt nöfnum sínum í Parasport Danmark, Parasport Sverige, Parasport Norge og svo framvegis. Það eru allar Norðurlandaþjóðirnar nema við komnar í þetta.
Við erum reyndar með þýðinguna okkar hjá Íþróttasambandi fatlaðra þegar komið er inn í sundlaugina, þá stendur Parasport Iceland og Parasport Ísland í norræna samhenginu. En til dæmis í Danmörku og Svíþjóð í fjölmiðlum er bara talað um Paralympics,“ útskýrði Þórður Árni.
Viðtalið við Þórð Árna má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.