Glímir enn við eftirköst brottvikningarinnar

Novak Djokovic á æfingu í Melbourne í Ástralíu.
Novak Djokovic á æfingu í Melbourne í Ástralíu. AFP/William West

Serbneski tennisleikarinn Novak Djokovic viðurkennir að hann upplifi enn tráma þegar hann heimsækir Ástralíu eftir að honum var vísað úr landinu í ársbyrjun 2022.

Djokovic var ekki bólusettur fyrir kórónuveirunni, sem fór gegn reglum Ástralíu um heimsóknir til landsins á þeim tíma, og var því vikið brott.

Hann er nú staddur í Melbourne þar sem Djokovic hyggst taka þátt í Opna ástralska meistaramótinu, og var í sömu erindagjörðum árið 2022.

„Í síðustu tvö skiptin sem ég hef lent í Ástralíu og farið í gegnum vegabréfaeftirlit hef ég upplifað svolítið tráma frá því fyrir þremur árum. Það örlar enn á því þegar ég fer í vegabréfaeftirlitið og athuga hvort einhver frá innflytjendaeftirlitinu sé að nálgast.

Ég velti því fyrir mér hvort manneskjan sem er að skoða vegabréfið mitt sjái til þess að ég verði tekinn fastur eða mun hún leyfa mér að komast í gegn? Ég verð að viðurkenna að ég upplifi þetta svona,“ sagði Djokovic í samtali við ástralska dagblaðið Herald Sun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert