Bandaríkjamaðurinn Gary Hall Jr., margfaldur verðlaunahafi í sundi á Ólympíuleikum, kveðst hafa glatað öllum tíu verðlaunapeningum sínum af leikunum árin 1996, 2000 og 2004, er heimili hans brann til grunna í gróðureldunum sem nú geisa í Los Angeles.
Um fimm gulverðlaunapeninga er að ræða ásamt þremur silfurverðlaunapeningum og tveimur bronspeningum.
Í samtali við Los Angeles Times segist Hall Jr. aðeins hafa náð í hundinn sinn, smá hundamat, insúlín sem hann þarf vegna sykursýki, málverk af afa sínum og grip sem tengist trú hans af heimili sínu áður en Hall Jr. þurfti að flýja af heimilinu sem var að verða eldinum að bráð.
Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíusambandsins, tilkynnti á X-aðgangi sínum að Hall Jr. yrði útvegaðar nýjar eftirmyndir af verðlaunapeningunum tíu.