Tekst Kansas City hið ómögulega?

Tekst Patrick Mahomes og liðsfélögum hans í Kansas City Chiefs …
Tekst Patrick Mahomes og liðsfélögum hans í Kansas City Chiefs hið ómögulega? AFP/Joe Sargent

Kansas City Chiefs stefnir á þriðja titilinn í röð í NFL-ruðningsdeildinni, en önnur umferðin í úrslitakeppni deildarinnar hefst um helgina. Fyrir aðdáendur stóru knattspyrnudeildanna í Evrópu þættu slíkir hlutir vart fréttanæmir þar sem lið vinna oft titla ár eftir ár í skjóli eyðslu fjármagns í stórleikmenn til að fylla skörðin þegar á vantar.

Slíka hluti er ekki hægt að gera í stóru atvinnudeildunum hér vestra vegna launaþakanna í deildunum, en það setur þak á þá upphæð sem lið geta greitt leikmannahópum sínum. Þar að auki er leikmannaval einnig til staðar, en það gefur verstu liðunum eftir lok keppnistímabilsins tækifæri á að fá til sín bestu nýliðana ár hvert.

Þetta sósíalíska kerfi sem er rekið af atvinnudeildunum hér vestra gerir það að verkum að mjög erfitt er fyrir lið að vinna meistaratitla tvö ár í röð – hvað þá þrjú ár í röð. Það hefur ekki gerst síðan 2000-2002 í NBA (Lakers), 1976-1979 í NHL-íshokkídeildinni (Montreal), 1998-2000 í MLB-hafnaboltadeildinni (NY Yankees), og aldrei í sögu NFL-ruðningsdeildarinnar síðan að liðunum í deildinni var fjölgað til muna og Ofurskálarleikurinn var settur af stað 1967. 

Kansas City og Detroit bestu liðin í deildarkeppninni

Staðan hjá Chiefs í ár er því óvenjuleg, en liðið tapaði aðeins tveimur af sautján leikjum sínum, þar á meðal í síðasta deildarleik liðsins þegar flestir af bestu leikmönnum þess voru hvíldir eftir að liðið tryggði sér toppsætið í Ameríkudeildinni, en það gaf liðinu frí í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Helstu keppinautar Chiefs í Ameríkudeildinni verða eflaust Buffalo Bills og Baltimore Ravens, en þau lið munu þurfa að slá út Chiefs á heimavelli liðsins. Það verður hins vegar erfitt þar sem Chiefs tapar næstum aldrei á heimavelli sínum, en stuðningsfólk liðsins lætur meira til sín heyra en hjá mörgum öðrum liðum.

Í Landsdeildinni hefur það verið uppgangur Detroit Lions sem hefur vakið mestu athyglina, en Lions-liðið endaði með sama árangur og meistarar Chiefs. Þessi árangur liðsins náðist þrátt fyrir að Detroit hafi átt við mjög erfið meiðsl lykilleikmanna alla deildarkeppnina. Það virtist ekki skipta máli fyrir liðið hvaða leikmaður meiddist um hverja helgi, einhvern veginn náði liðið að vinna helgi eftir helgi. 

Þessi árangur er mest rekinn til þjálfara Lions, Dan Campbell, en hann hefur umturnað liðinu síðan að hann tók við stöðu aðalþjálfara liðsins fyrir fjórum árum. Campbell er þekktur fyrir að treysta leikmönnum sínum á vellinum og tekur mun meiri áhættu á mikilvægum augnablikum í leikjum en flestir aðrir þjálfarar í deildinni. 

Meistararnir sigurstranglegir á heimavelli

Í annarri umferðinni um helgina berjast átta lið um tækifærið að komast í undanúrslitin, en þegar þangað kemur getur allt gerst. Bæði Kansas City og Detroit eru í bestu stöðunni þar sem þessi lið munu leika á heimavöllum sínum, hvað svo sem gerist í öðrum leikjum.

Í Ameríkudeildinni mætir Kansas City liði Houston Texans, en það lið er með eitt besta varnarliðið í deildinni sem mun eflaust gera það erfitt fyrir Íslandsvininn Patrick Mahomes, leikstjórnanda Chiefs, að athafna sig. Chiefs hafa þó sýnt alla deildarkeppnina að ef liðið lendir í hörkuspennandi leik í lokin, ná þeir ávallt að leysa þá þraut. Þeir sjá út leikinn. Það ætti einnig að gerast hér.

Hinn leikurinn í Ameríkudeildinni verður á milli tveggja hnífjafnra liða, en í þeim leik fær Buffalo Bills lið Baltimore Ravens í heimsókn. Það mun að venju verða hörkufrost í Buffalo, en það gerist flest ár í heimaleikjum liðsins í desember og janúar. Sú er einnig veðurspáin fyrir leikinn á sunnudag, en það kann að hjálpa gestunum, þar sem Baltimore er með besta ruðningsmanninn í deildinni, Derrick Henry. Hann mun eflaust verða liðinu dýrmætur þar sem mun erfiðara er fyrir lið að reyna á kastara sína í slíkum kulda. Tuðran í ruðningsíþróttinni verður ávallt hörð eins og skel í hörku frosti, og þá er gott að geta reitt sig á bakvörð eins og Henry.

Allt getur gerst í þessum leik. 

„Harkan sex” í fyrirrúmi hjá Detroit og Washington

Í landsdeildinni ætti Detroit að vinna heima gegn Washington, en þjálfarar beggja liða eru þekktir fyrir að taka áhættur seint í leikjum. Svo virðist sem að heimaliðið ætti að vinna hér auðveldlega ef marka má árangur liðanna í deildarkeppninni, en Washington vann á útivelli í fyrstu umferðinni gegn sterku liði Tampa Bay, þannig að þetta gæti orðið skemmtilegur leikur.

Í hinum leik Landsdeildarinnar ætti Philadelphia Eagles ekki að eiga í miklum vandræðum á heimavelli sínum með Los Angeles Rams. Leikmenn og þjálfarar Rams hafa átt í miklum erfiðleikum, rétt eins og leikmenn annarra liða frá Los Angeles eftir eldana hér í bæ í síðustu viku, og það gæti verið erfitt fyrir Rams að vinna gegn Eagles eftir flug þvert yfir álfuna og lenda síðan í baráttu gegn Eagles og áköfu stuðningsfólki þeirra. 

Eins og úrslitakeppnin í NFL-deildinni er sett upp, er erfitt fyrir lið sem ekki eru í tveimur toppsætunum í Ameríku- og Landsdeild að vinna tvo leiki á útivelli gegn betri liðum til að komast í Ofurskálarleikinn. Svo virðist einnig ætla að verða í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert