Glæsilegur sigur Íslands á Belgíu

Arnar Karvelsson skoraði tvö mörk fyrir Ísland.
Arnar Karvelsson skoraði tvö mörk fyrir Ísland. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

U20 ára karla­landslið Íslands í ís­hokkí vann stórsigur á Belgíu, 7:2, í fjórða leik sín­um í 2. deild B á heims­meist­ara­mót­inu í Belgrad í Serbíu í dag.

Ísland hefur nú unnið tvo leiki og tapað tveimur. Síðasti leikur liðsins verður gegn Ísrael og fer fram á laugardag.

Í dag var íslenska liðið við stjórn allan tímann og var 2:0 yfir að lokinni fyrstu lotu.

Í annarri lotu komst Ísland í 3:0 áður en Belgía minnkaði muninn í 3:1. Íslenska liðið skoraði næsta mark en aftur minnkaði Belgía muninn niður í tvö mörk. Fimmta mark íslensku strákanna kom áður en lotan var úti og staðan að henni lokinni því 5:2.

Í þriðju og síðustu lotu bættu Íslendingar svo við tveimur mörkum og niðurstaðan öruggur fimm marka sigur.

Arnar Karvelsson og Birkir Einisson skoruðu báðir tvö mörk fyrir Ísland auk þess sem Haukur Karvelsson, Uni Blöndal og Arnar Helgi Kristjánsson komust á blað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert