Jón Erik Sigurðsson og Bjarni Þór Hauksson, landsliðsmenn í alpagreinum, tóku þátt í alþjóðlegum unglingamótum í Folgaríu á Ítalíu á þriðjudag og miðvikudag.
Á þriðjudag kepptu þeir í svigi og hafnaði Jón Erik í öðru sæti eftir að hafa verið með tíunda besta tímann eftir fyrri ferðina, en hann náði svo besta brautartímanum í seinni ferðinni. Bjarni Þór náði ekki að ljúka fyrri ferðinni.
Þeir kepptu síðan á tveimur stórsvigsmótum í gær og vann Jón Erik fyrra mótið, en hann var með besta tímann í báðum ferðum. Hann fékk 33.29 FIS-punkta fyrir mótið sem eru hans bestu stórsvigspunktar á ferlinum. Bjarni Þór var með 12. besta tímann í fyrri ferðinni en náði svo að vinna sig upp í áttunda sætið.
Á seinna mótinu varð Jón Erik í öðru sæti og bætti FIS-punktana sína lítillega og Bjarni Þór varð í fimmta sæti.
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, landsliðskona í alpagreinum, tók þátt í tveimur alþjóðlegum mótum í risasvigi í gær í Malles-Watles á Ítalíu.
Hún endaði í sjötta sæti á fyrra mótinu og fékk 51.83 FIS-punkta, sem eru hennar næst bestu risasvigspunktar á ferlinum. Í seinna mótinu hafnaði Hólmfríður Dóra í 14. sæti og fékk fyrir það 57.67 FIS-punkta.