Söguleg stund fyrir Ísland

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza.
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza. Ljósmynd/Skautasamband Íslands

Nýr kafli í sögu íslenskra íþrótta verður skrifaður í næstu viku þegar par keppir í fyrsta sinn fyrir hönd Íslands á Evrópumóti í listskautum. 

Þau Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza náðu lágmörkum, 75 stigum, inn á Evrópumót í nóvember síðastliðnum eftir að hafa skautað saman í aðeins hálft ár. Síðan þá hafa orðið miklar framfarir hjá teyminu og má eiga von á því að sjá nýjar æfingar (e. element) frá þeim, þar á meðal þrefalda snúningslyftu (e. twist lift).

Þreföld snúningslyfta myndi hækka tæknistig teymisins til muna eða mögulega 3,4 stig í hvoru prógrammi fyrir sig og mun það auka möguleika þeirra að ná lágmörkum, 88 stigum, inn á heimsmeistaramót til muna.

„Það kom öllum á óvart hve fljótt Júlía Sylvía náði tökum á tvöfaldri snúningslyftu,” sagði þjálfari teymisins, Benjamin Naggiar, sem hefur unnið streitulaust með teyminu við að betrumbæta tæknina. „En umskiptin í þrefaldan snúning krefst ekki aðeins nákvæmari tímasetningar heldur einnig lengri lofttíma sem og snúningshraða sem við vinnum stöðugt að bæði á ís og af.”

„Þetta snýst allt um að hámarka möguleika okkar,“ sagði Júlía Sylvía. „Við vitum að þrefalda snúningslyftan er áhættusöm, en hún opnar líka möguleika okkar á að ná lágmörkum á heimsmeistaramótið.“

„Evrópumeistaramótið, sem hefst 28. janúar, verður merkingarfull stund fyrir íslenska listskauta og hvetjum við alla til að fylgjast með gengi þeirra Júlíu og Manuel,” sagði María Fortescue, framkvæmdastjóri Skautasambandsins, sem jafnframt verður liðsstjóri á Evrópumótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert