Píludeild Þórs á Akureyri hefur tilkynnt að Russ Bray, goðsögn í píluheiminum, muni sjá um að kynna stigin á Akureyri Open sem fer fram í Sjallanum í byrjun apríl.
Bray tilkynnti stigin á heimsmeistaramótinu í Alexandra Palace, Ally Pally, í Lundúnum um langt árabil og er oftast einfaldlega þekktur sem „Röddin.“
Hann lét af þeim störfum eftir þarsíðasta heimsmeistaramót í janúar á síðasta ári en snýr nú aftur og það á Íslandi.
„Hann fékk nóg af AllyPally og vildi ólmur mæta á SjallyPally. Hlökkum til að fá þennan mikla meistara á Akureyri Open og þenja raddböndin á sviðinu!“ sagði meðal annars í tilkynningu frá píludeild Þórs.
Í tilkynningunni fylgdi með skemmtilegt myndband af Bray að senda kveðju vegna komu sinnar, sem má sjá hér.