Undanúrslitaleikirnir í NFL-deildinni fara fram á morgun, sunnudag, og eiga öll liðin það sameiginlegt að leikstjórnendur þeirra spila lykilhlutverk í gengi liðanna.
Fáar stöður í liðsíþróttum eru mikilvægari en staða leikstjórnandans í NFL ruðningsdeildinni. Sigurvegararnir leika svo í Ofurskálarleiknum eftir tvær vikur í New Orleans.
Í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar mætast Kansas City Chiefs og Buffalo Bills á Arrowhead-leikvanginum í Kansas. Heimamenn eru nú sjöunda árið í röð í þessum úrslitaleik, en Chiefs hefur unnið fjóra af sex leikjunum til þessa og stefnir á þriðja meistaratitilinn í röð.
Leikstjórnendur liðanna, Patrick Mahomes hjá Chiefs og Josh Allen hjá Bills, hafa mæst alls átta sinnum undanfarin ár í deildaleikjum og úrslitakeppninni. Í deildaleikjunum hefur Buffalo unnið fjóra af fimm leikjum liðanna, en í úrslitakeppninni – þegar allt er í húfi – hefur Kansas City unnið alla þrjá leiki liðanna. Það er því mikill hefndarhugur í leikmönnum Buffalo.
Þetta verður eflaust hörkuleikur, en Chiefs liðið hefur ekki haft eins mikla yfirburði í leikjum sínum á þessu keppnistímabili og undanfarin ár. Þar kann þreytan að segja til sín, en jafnt og í öðru stóru atvinnudeildunum hér vestra, þá tekur á leikmannahópinn að rúlla gegnum deildakeppnina, úrslitakeppnina og alla leið í úrslitaleikinn sjálfan ár eftir ár.
Mahomes var inntur eftir þessu í vikunni af blaðamönnum og hann hafði litlar áhyggjur.
„Okkar leikmannahópur veit hvað þarf til að vinna titilinn og reynslan mun hjálpa okkur í þessum leik. Við þurfum ekkert endilega að skora mikið af stigum, heldur endar þetta venjulega á því að finna leið til að sigra í lokin á þessum leikjum þegar allt er í húfi.”
Buffalo hefur leikið betur af þessum liðum á keppnistímabilinu þar sem af er, en erfitt er að vanmeta það gildi sem heimavöllurinn gefur Kansas City. Liðið hefur unnið síðustu átta leiki sína í úrslitakeppninni, en því lengri sem sú vinningsruna gengur verður þetta ávallt erfiðara.
Meirihluti NFL-sérfræðinga hér vestra – og kannski vita þeir meira en undirritaður – veðja á Buffalo í þessum leik, en erfitt er að sjá að Kansas City muni gefa eftir meistaratitilinn. Mahomes hefur sýnt allt keppnistímabilið í hverjum jafna leiknum af öðrum að hann veit hvað þarf að gera á lokamínútunum að vinna.
Kannski verður kærasti Taylor Swift, Travis Kelce, maðurinn sem gerir gæfumuninn, en hann vaknaði til lífsins í leik Chiefs um síðustu helgi.
Í úrslitaleik Landsdeildarinnar taka leikmenn Washington Commanders rútuna norður hraðbraut 95 til Philadelphia til að eiga við Eagles á Lincoln leikvanginum. Þetta eru gamlir erkifjendur sem leika í sama riðli og bókstaflega barist síðustu átta áratugina, þannig að leikmannahópar og þjálfarar þekkja hverja aðra vel.
Lykilleikmennirnir í þessum leik verða nýliðinn og leikstjórnandi Washington, Jayden Daniels, og alhliða stjarna Philadelphia í sóknarleiknum, Saquon Barkley.
Philadelphia er betra liðið og leikur á heimavelli, en leikstjórnandi liðsins, Jalen Hurts, hefur átt við meiðsl á vinstri legg undanfarið (já, ég veit að brandararnir um seinna nafn kappans skrifa sig sjálfir!) og ef hann getur ekki beitt sér að fullu gæti Washington komið á óvart þriðju helgina í röð, en Commanders hefur unnið tvo erfiða útileiki í Tampa Bay og Detroit það sem af er í úrslitakeppninni.
Hurts hefur ekki leikið vel í síðustu átta leikjum sínum á keppnistímabilinu, en Philadelphia hefur samt sem áður, rétt eins og Kansas City, náð að vinna hvern leikinn af öðrum.
Ef Washington ætlar sér sigur í þessum leik verða leikmenn Commanders að geta stöðvað Barkley, en það gæti orðið erfitt þar sem hann hefur verið besti leikmaðurinn í deildinni að mínu mati á keppnistímabilinu.
Það er erfitt að fara á móti gullnu reglunni í spádómum að treysta á heimaliðið, og það ætla ég mér ekki að gera. Ég hef hins vegar séð þetta dæmi oft áður í sögu úrslitakeppninnar í NFL þar sem lið með ungan leikstjórnanda verður allt í einu „heitt” og rúllar sér inn í Ofurskálarleikinn gegn að því virðist betri andstæðingum.
Lykillinn í þessum leik að mati NFL sérfræðinga verður hversu vel sterkt varnarlið Eagles nái að hemja Jayden Daniels, sem til þessa hefur átt besta upphafsár leikstjórnanda í sögu deildarinnar.
Þetta verður nágrannaslagur af bestu gerð.