Fjölnir hafði betur gegn SA, 3:1, í toppslag úrvalsdeildar kvenna í íshokkí í kvöld.
Fjölniskonur eru með 23 stig eftir ellefu leiki og SA með 19 stig eftir tíu leiki. SR rekur lestina með sex stig.
Eftir markalausa fyrstu lotu kom Sigrún Árnadóttir Fjölni yfir snemma í annarri lotu og Laura-Ann Murphy gerði annað markið um miðja lotuna.
Freyja Rán Sigurjónsdóttir minnkaði muninn fyrir SA en Kolbrún Garðarsdóttir gerði þriðja mark Fjölnis í lok lotunnar og var ekkert skorað í þriðju lotu.