Heiður að spila fyrir framan Trump

Travis Kelce situr fyrir svörum á fréttamannafundi.
Travis Kelce situr fyrir svörum á fréttamannafundi. AFP/Michael Democker

Travis Kelce, lykilmaður Kansas City Chiefs í NFL-deildinni í ruðningi, segir að það verði heiður að spila fyrir framan Donald Trump Bandaríkjaforseta þegar Ofurskálarleikurinn gegn Philadelphia Eagles fer fram í New Orleans á sunnudagskvöld.

Trump verður fyrsti sitjandi Bandaríkjaforseti sem verður viðstaddur úrslitaleik NFL-deildarinnar.

„Ég tel það vera mikinn heiður, sama hver forsetinn er. Ég er spenntur því þetta er stærsti leikur lífs míns. Að vera með forsetann á svæðinu væri ansi svalt þar sem við erum besta þjóð heims,“ sagði Kelce á fréttamannafundi í gær.

Hann hefur þrisvar sinnum orðið NFL-meistari með Kansas City Chiefs og freistar þess nú að bæta fjórða bikarnum í safnið. Kelce er sem kunnugt er kærasti Taylor Swift, einnar vinsælustu tónlistarkonu heims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert